Leikfélag Selfoss var stofnað þann 9. janúar árið 1958 fyrir tilstuðlan Kvennfélags Selfoss. Leikfélagið var upphaflega skírt Leikfélagið Mímir en nafninu var fljótlega breytt eftir beiðni þess efnis frá nemendafélagi Menntaskólans á Laugarvatni sem bar sama nafn.
Leikfélag Selfoss hefur frá upphafi verið afar virkt, verið í hópi virkustu leikfélaga landsins. Settar hafa verið upp 1-2 sýningar nánast hvert einasta ár frá stofnun. Því ber helst að þakka gríðarlega dugmiklu og hæfileikaríku fólki sem starfað hefur í leikfélaginu í gegnum tíðina og hefur unnið sitt starf eingöngu af leiklistaráhuga.
Leikfélagið hefur oft átt í húsnæðisvandræðum í gegnum tíðina en hefur ekki látið það slá sig út af laginu. Síðan 1988 hefur leikfélagið haft til fullra afnota gamla iðnskólahúsið á Selfossi sem nú er kallað Litla leikhúsið við Sigtún.
Leikfélag Selfoss hefur ávallt lagt mikinn metnað í starf sitt og hefur ráðist í mörg krefjandi verkefni. M.a. hafa verið farnar 3 leikferðir erlendis á leiklistarhátíðir og ferðast var með margar sýningar á árum áður um nærsveitir með mikilli fyrirhöfn. Einnig hafa verið sýndar stórar sýningar með yfir 40 leikurum í Litla leikhúsinu við Sigtún. 2 sýningar hafa hlotið þann heiður að vera valdar áhugaverðustu leiksýningar ársins hjá áhugaleikhúsunum og verið sýndar á sviði Þjóðleikhússins í kjölfarið. Á síðustu árum hefur það færst í vöxt að leikfélagið láti skrifa eða þýða sérstaklega verk fyrir sig og frumsýni þau fyrst allra á Íslandi.
Það eru þó ekki einungis leiksýningar sem leikfélagið fæst við heldur eru ýmis smærri verkefni sem leikfélagið stendur fyrir. T.d. eru haldin vinsæl barnanámskeið á sumrin auk ýmissa annarra leiklistarnámskeiða, tækninámskeiða og söngnámskeiða. Haldin hefur verið árshátíð um langt skeið, útimarkaðir, stuttverkasýningar auk þess sem leikfélagið hefur tekið þátt í ýmis konar uppákomum s.s. 17. júní hátíðarhöldum, þrettándagleði, stórafmælum félagasamtaka og leiklesið brot úr verkum hér og þar. Starfið er því afar fjölbreytt og alltaf eitthvað spennandi í gangi. Auk þess hafa meðlimir verið virkir í að sækja sér aukna menntun í ýmsu sem tengist leikhúsinu, sérstaklega í leiklistarskóla Bandalags Íslenskra leikfélaga. Leikfélag Selfoss hefur nánast frá upphafi verið sterkt afl í menningarlífi Selfossbæjar og nú Árborgar.
Starfið í leikhúsinu felst þó ekki einungis í að standa á sviði og leika heldur eru störfin utan sviðs ekki síður mikilvæg og krefjandi og mörg, t.d. sminkur, hárgreiðslukonur, leikmynda og leikmunasmiðir, sviðsmenn, hvíslarar, miðasölufólk, tæknimenn, kjallarameistarar, saumakonur og svona mætti lengi telja. Margir af þeim sem hafa starfað í leikfélaginu til lengri eða skemmri tíma hafa aldrei leikið. Það er því alls konar fólk sem laðast að leikhússtarfinu og alltaf er pláss fyrir nýtt og duglegt fólk og allir velkomnir. Allt er þetta gert í sjálfboðavinnu af eintómum áhuga. Þeir sem hafa áhuga á að bætast í hópinn er bent á að innganga í félagið fer formlega fram á aðalfundi á vorin en innganga er þó ekki skilyrði fyrir þátttöku.