Þó nokkuð margar tilraunir voru gerðar til að stofna leikfélag á Selfossi áður en hið eiginlega Leikfélag Selfoss var stofnað. Þessi fyrstu skref sem stigin voru í átt að leiklistariðkun eru sem betur fer til bókfærð, en einstök fundargerðarbók er til í fórum félagsins, þar sem allt þetta er skrásett.
Fyrsta félagið var stofnað árið 1944 og segir Karl Eiríksson, heiðursfélagi í Leikfélagi Selfoss, að Daníel Bergmann bakari hafi verið þar aðaldrifkrafturinn. Félag var stofnað og sett var upp leikritið Apakötturinn í leikstjórn áðurnefnds Daníels og lék Karl Eiríksson hlutverk Ívertsens náttúrufræðings, en aðrir sem léku voru þau Sigríður Guðmundsdóttir, Jónína Jónsdóttir, Daníel Bergmann og Guðmundur Guðmundsson. Undirleik söngva annaðist Regína Guðmundsdóttir. Magnús Kristjánsson minnti á. Karl Gänz sá um leiksvið og Þorsteinn Guðmundsson ljósabúnað. Sýningin var einnig sýnd að Vatnsleysu í Biskupstungum. Þetta félag hélt áfram starfsemi og var með revíur á skemmtunum, en ekkert er skráð um það eftir 1945.
Fimm árum síðar, 1950, er aftur skráður fundur og þá aftur stofnað félag sem nefnt var „Leikfélagið á Selfossi“. Formaður þessa félags var Karl J. Eiríksson. Þetta félag hélt námskeið í leikstjórn og förðun og setti upp verkið Allra sálna messu og starfar samkvæmt fundargerðum fram til ársins 1953.
Það næsta sem gerist er að Kvenfélagið á Selfossi stofnar það félag sem við þekkjum í dag, Leikfélag Selfoss, 9. janúar 1958. Stofnfundurinn var haldinn í iðnaðarmannahúsinu á Selfossi. Fyrstu stjórnina skipuðu þau Ingvi Ebenhardsson formaður, Sigrid Österby ritari, Ólafur Ólafsson gjaldkeri og frú Áslaug Þ. Símonardóttir var kosin framkvæmdastjóri. Í varastjórn voru þau Ólöf Österby, Svanur Kristjánsson og Axel Magnússon.
Leikfélagið fékk upphaflega nafnið Leikfélagið Mímir en nafninu var breytt ári eftir stofnun félagsins vegna athugasemda frá nemendafélagi Menntaskólans á Laugarvatni sem bar sama nafn.