
Laugardagskaffi
Laugardagskaffi er gömul hefð sem hefur stundum verið tekin upp. Á laugardegi frá hausti og fram á vor er gestum og gangandi boðið í kaffi í Litla leikhúsinu við Sigtún milli 11:00-13:00 (nema annað sé auglýst á félagapóstinum). Heitt á könnunni og einn eða fleiri stjórnarmeðlimir sitja tilbúnir til skrafs og ráðagerðar um starf leikfélagsins og það sem frammundan er en annars er nokkuð frjálst hvert umræðuefnið er og þarf ekkert endilega að tengjast leikhúsinu. Einnig tilvalinn vettvangur til að skoða sig um og kynnast leikhúsinu og um hvað leikhússtarfið snýst.
Notalegt og heimilislegt hádegiskaffi í faðmi leikhúsandans þar sem allir eru velkomnir að kíkja inn í lengri eða skemmri tíma.

Félagapóstur
Félagapóstur Leikfélags Selfoss, leikfelagselfoss@leikfelagselfoss.is, er póstlisti sem hver sem er getur skráð sig á, hvort sem hann í leikfélaginu eða ekki. Reglulega eru sendir út tölvupóstar með tilkynningum og fréttum frá leikfélaginu um viðburði, námskeið, sýningar og annað sem er í gangi hjá leikfélaginu hverju sinni. Auk þess áframsendum við auglýsingar um ýmsar áhugaverðar sýningar og viðburði frá öðrum leikfélögum sem okkur berst. Einnig fáum við oft tilkynningar frá kvikmyndagerðarfólki sem vantar leikara.
Eins og áður sagði er öllum frjálst að biðja um að vera á listanum og ekkert mál að biðja um að vera tekinn af listanum ef viðkomandi vill einhverra hluta vegna ekki fá reglulegan póst frá okkur áfram.
Til að skrá sig á listann þarf einungis að senda tölvupóst á netfangið leikfelagselfoss@leikfelagselfoss.is og biðja um að vera bætt við.

Jólakvöld
Árið 2009 var endurvakin góður siður úr starfi félagsins, nefnilega að halda jólakvöld um miðjan desember. Þetta hefur lukkast gríðarlega vel og er orðinn órjúfanlegur og árlegur viðburður í starfi Leikfélags Selfoss.
Jólakvöldin eru róleg og heimilisleg stund þar sem fólk getur notið sín og nærveru annarra. Þar er kjörið að slaka á í jólaundirbúningnum, njóta augnabliksins og stemningarinnar á afslappaðann hátt í góðu og hlýju umhverfi leikhússins.
Það er alltaf gaman að fá skemmtiatriði á svona kvöldi og ef þú lumar á einu slíku, góðri sögu, ljóði eða jafnvel lagi, þá væri það afar skemmtilegt. Einnig hafa stundum verið sett upp stutt jólaleikrit. Gott væri ef viðkomandi gæti látið vita með tölvupósti á leikfelagselfoss@leikfelagselfoss.is. Viljum undirstrika að það er afar frjálsleg dagskrá á þessum jólakvöldum og öllum velkomið að stíga á svið, jafnvel óundirbúið ef andinn blæs yfir!
Það hefur skapast hefð fyrir því að fólk komi með smákökur með sér og slái þannig saman í gott hlaðborð þó það sé engin skylda, en leikfélagið býður upp á kaffi og kakó.

Höfundakvöld
Höfundakvöld hafa verið haldin í leikhúsinu reglulega. Höfundakvöldin eru vettvangur fyrir þá sem hafa áhuga á leikritaskrifum að koma saman, spjalla og skrifa. Það er oft auðveldara að koma sér að verki ef tekinn er frá fastur tími fyrir skrif á leikþáttum og leikritum. Hugmyndin er að hafa dagskránna opna, gera stuttar ritunaræfingar, lesa fyrir hvort annað, rýna og deila hugmyndum og umfram allt skrifa. Allir velkomnir