1. gr. Félagið heitir Leikfélag Selfoss. Heimili þess og varnarþing er á Selfossi.
2. gr. Tilgangur félagsins er að vekja almennan áhuga á leiklist. Tilganginum hyggst félagið ná með því m.a. með því að sýna leikrit og leikþætti, halda námskeið og fundi varðandi leiklist og gefa félögum kost á að sækja námskeið á ýmsum sviðum leiklistar.
3. gr. Starfsár félagsins skal vera á milli aðalfunda. Reikningsár þess skal vera frá 1. apríl til 31. mars.
4. gr. Árgjald félagsins ákveður aðalfundur hverju sinni og er gjalddagi þess 1. maí ár hvert. Félagsmenn 18 ára og yngri greiða ekki félagsgjald. Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda. Félagsmenn 67 ára og eldri eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda. Ekki skal greiða meira en eitt árgjald á hverju heimili.
5. gr. Aðalfundur fer með æðsta vald í félaginu. Hann skal haldinn að vori eigi síðar en 31. maí. Aukafundi skal halda svo oft sem þurfa þykir og er stjórnin skyldug til að boða aukafund ef 10 félagar eða fleiri óska þess skriflega. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum.
Dagskrá aðalfundar:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Lesin upp fundargerð síðasta fundar.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Skýrsla gjaldkera.
5. Inntaka nýrra félaga.
6. Afgreiðsla tillagna er borist hafa fundinum s.s. laga-og skipuritsbreytingatillögur. Laga- og skipuritsbreytingartillögur skulu hafa borist sjórn eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund.
7. Stjórnarkjör.
8. Kosning tveggja félagslegra endurskoðenda.
9. Árgjaldið ákveðið.
10. Önnur mál.
Til aðalfundar skal boðað með a.m.k. 3 vikna fyrirvara, bréflega. Ekki eru aðrir atkvæðisbærir á aðalfundi en skuldlausir félagar. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
6. gr. Félaginu stjórna fimm menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Formann skal kjósa til eins árs í senn, en aðra í stjórn til tveggja ára, þó þannig að aðeins tveir þeirra gangi úr stjórn í einu. Stjórn skiptir að öðru leiti með sér verkum. Varastjórn skal skipuð þremur mönnum öllum kosnum til eins árs í senn.
7. gr. Stjórnin fer með öll málefni félagsins er snerta hag þess og rekstur. Varastjórn skal boða á stjórnarfundi og hefur hún málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Stjórnin sér um val á verkefnum og er heimilt að ráða framkvæmdastjóra/leikstjóra fyrir öll meiriháttar verkefni og skal hann sitja stjórnarfundi ef óskað er. Stjórn er einnig heimilt að ráða faglega hönnuði við uppsetningu leiksýninga og leiðbeinendur til námskeiðahalds. Gera skal samning við alla verktaka sem þiggja greiðslur frá félaginu. Stjórn starfar eftir skipuriti stjórnar Leikfélags Selfoss og skipuritinu má aðeins breyta með samþykki aðalfundar.
8. gr. Hætti félagið starfsemi sinni, skulu eignir þess afhentar bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborg til varðveislu uns annað leikfélag verður myndað og hefur sama tilgang og um getur í 2. gr. þessara laga.
9. gr. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 hluta félagsmanna á fundinum.
10.gr. Með þessum lögum falla öll eldri lög úr gildi.
Selfossi 10. maí 2023