Hið árlega Jólakvöld Leikfélags Selfoss veður haldið miðvikudaginn 11. desember kl. 20:00 í Litla Leikhúsinu við Sigtún. Jólakvöldið verður róleg og heimilisleg stund þar sem fólk getur notið sín og nærveru annarra. Þar er kjörið að slaka á í jólaundirbúningnum, njóta augnabliksins og stemningarinnar á afslappaðann hátt í góðu og hlýju umhverfi leikhússins.
Góðir jólagestir og karakterar hafa kíkt í heimsókn á þessum kvöldum og hver veit nema jólakisi heilsi upp á okkur líkt og síðustu ár. Síðastliðinn mánuð hafa tvö leikhúsnámskeiði fyrir börn og unglinga verið í gangi hjá okkur í umsjón Rakelar Ýr Stefánsdóttur, hún útskrifaðist af leikarabraut frá Listaháskóla Íslands síðastliði vor. Afrakstur námskeiðanna verður sýndur þetta kvöld í stuttum leikþáttum og uppákomum. Einnig hefur sönghópurinn Triolas boðað komu sína með ljúfum jólatónum og söng.
Jólakvöldið er opinn vettvangur fyrir alla sem vilja leggja sitt af mörkum við að skapa góða jólastemmningu svo atriði hvers konar í anda jólanna eru velkominn. Ef þú lumar á einu slíku, góðri sögu, ljóði eða jafnvel lagi, þá væri það afar skemmtilegt. Gott væri ef viðkomandi gæti látið vita í tölvupósti á leikfelagselfoss@gmail.is eða sendi okkur línu á facebook.
Það hefur skapast hefð fyrir því í gegnum árin að fólk komi með smákökur eða annað góðgæti með sér og slái þannig saman í gott hlaðborð, en Leikfélagið býður uppá kaffi og kakó.
Við hlökkum til að njóta jólastemmningarinnar með ykkur ❤
Stjórn Leikfélags Selfoss