Hugarflug var fyrst í stað tilraunverkefni þar sem félagsmönnum leikfélagsins jafnt sem öðrum voru gefnar nokkuð frjálsar hendur til að setja upp stutt verk, flytja tónlist, ljóð eða annað í svipuðum dúr á tveimur ca. klst sýningum í leikhúsinu. Fólk æfir, leikstýrir og undirbýr sig á eigin vegum og dregur sig sjálft saman í verkefnin, skiptir með sér æfingatímum í húsinu og að lokum eru öllum atriðunum raðað saman í eina sýningu.
Fyrsta Hugarflugið var haldið haustið 2005 og tókst mjög vel og hefur verið fastur liður síðan, ýmist haldið að vori eða hausti og nú í seinni tíð bæði að hausti og vori.
Hugarflug hentar einstaklega vel fyrir þá sem vilja prófa sig á nýjum vettvangi, s.s. að leikstýra, leika, leggja til frumsamið verk eða syngja. Æfingaferlið er 3-5 vikur, stutt en hnitmiðað og upplagt fyrir þá sem ekki gefa kost á sér í stóra verkefni vetrarins en vilja engu að síður sinna listinni. Margir ungir leikarar hafa stigið sín fyrstu spor á Hugarflugi og oftar en ekki eru hinir ungu og óslípuðu leiklistardemantar yngri kynslóðarinnar stór partur leikhópsins í bland við eldri og reyndari.
Hugarflug er því fyrst og fremst grasrótarstarf innan leikfélagsins sem oft er stökkpallur frekari sigra þeirra einstaklinga sem taka þátt. Lítill vettvangur til að láta drauma sína innan leikhússins rætast.