Frumsýning á Uppspuna frá rótum
14.02.2017 - Don Ellione

Leikfélag Selfoss frumsýnir verkið Uppspuna frá rótum föstudaginn 24. febrúar í Litla leikhúsinu við Sigtún. Verkið er eftir þá Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason en þeir hafa samið fjölda leikrita saman og í sitthvoru lagi. Auk þess eru þeir allir meðlimir í hinni stórskemmtilegu hljómsveit Ljótu hálfvitunum.
 
Verkið er fjölskyldusaga þar sem saman eru komnir fjórir ættliðir og hefst þegar Sigurður gamli, sem var í senn eiginmaður, pabbi, afi og langafi annarra persóna verksins, er nýlátinn. Fjölskyldusagan er rakin í grófum dráttum í öfugri tímalínu og spannar mestalla 20. öldina. Verkið er bæði gaman og alvara með fjölda skemmtlegra laga sem einnig eru samin af áðurnefndu þríeyki. Það var fyrst sýnt á heimavelli þremenningana á Húsavík árið 2000 en er nú sett upp í annað sinn.  

Leikstjóri sýningarinnar er Þórey Sigþórsdóttir leikkona og leikstjóri sem nýlega leikstýrði hinni frábæru sýningu Andaðu, sem sýnd er um þessar mundir í Iðnó. Alls eru 15 leikarar í sýningunni, hæfileg blanda af reyndum kempum sem og rísandi stjörnum framtíðarinnar. Auk þess er fjöldi fólks sem vinnur hin fjölmörgu en gríðarlega mikilvægu handtök baksviðs. Hópurinn inna sviðs sem utan vinnur nú hörðum höndum að hnýta lausa enda til að gefa ykkur öllum frábæra sýningu sem fjallar um fólk eins og mig og þig og alla hina.


Gleðileg jól
24.12.2016 - Don Ellione

Leikfélag Selfoss óskar öllum félögum, vinum og vandamönnum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.  Þökkum kærlega fyrir ánægjulegar stundir á hinum ýmsu viðburðum okkar á árinu. Við hlökkum sannarlega til að eiga nýjar ánægjustundir á komandi ári. 

Við vonum að þið borðið vel og eigið innilegar og góðar stundir með fjölskyldu og vinum um hátíðirnar. Passið ykkur á Jólasveinum, Grýlu og Jólakettinum. Leppalúði nennir nú varla að angra ykkur mikið. 

Stjórn Leikfélags Selfoss. 


Jólakvöld Leikfélag Selfoss
23.12.2016 - Don Ellione

Leikfélag Selfoss hélt sitt árlega jólakvöld 14. desember í Litla leikhúsinu við Sigtún. Fólk átti saman afar notalega og heimilislega stund þar sem kaffi, kakói og smákökum voru gerðar góð skil. 

Jólasaga var lesin, lög sungin og Jólakötturinn mætti í skrítnum búningi og grýtti mandarínum í fólk og fylgihluti. Sannarlega vel heppnað og skemmtilegt kvöld sem er ómissandi partur af starfi leikfélagsins.

 
Leikfélag Selfoss / Sigtún 1, 800 Selfoss / leikfelagselfoss@gmail.com