Gagnrýni um Uppspuna frá rótum
27.02.2017 - Don Ellione

Leikhúsgagnrýnandinn Elín Gunnlaugsdóttir var einn af gestum frumsýningar á verkinu Uppspuna frá rótum og hefur dómur hennar um sýninguna nú verið birtur. Eins og okkur grunaði var sá dómur ansi hreint góður. Hér er brot af gagnrýninni: 

„Tónlistin skipar stóran sess í verkinu en höfundar verksins eru jafnfram félagar í hljómsveitinni Ljótu hálfvitunum. Leikarar syngja ýmist einir eða allir saman bráðskemmtilega söngva. Meðleikur er í höndum leikara og verða söngatriðin þannig enn eðlilegri í framvindu verksins auk þess sem þau eru einkar skemmtilega útfærð af leikstjóranum. Tónlistarstjórn verkins er í höndum Stefáns Örn Viðarssonar og Guðnýjar Láru Gunnarsdóttur.

… Þó er vert að geta þeirra sem voru hvað eftirminnilegastir í sínum hlutverkum en það voru Jónheiður Ísleifsdóttir í hlutverki ættmóðurinnar Bjargar og Gústav Þór Stolzenwald í hlutverki ættföðurins Sigurðar. Þau voru mjög sannfærandi sem gömul hjón og líka þegar þau voru yngri að árum. Halldóra Ósk Öfjörð hefur mikla útgeislun á sviði og er hún í stóru hlutverki sem hin unga og leitandi Nína. Bjarni Stefánsson hefur leikið í mörgum sýningum Leikfélagsins og leikur hann Stefán, son þeirra Bjargar og Sigríðar. Í fyrstu virðist hlutverk hans ekki spennandi en þegar líður á sýninguna kemur annað í ljós og má segja að Bjarni hafi verið óhugnanlega sannfærandi í sínu hlutverki. Að lokum ber að nefna Kolbrúnu Lilju Guðndóttur í hlutverki Bryndísar en leikur hennar var mjög áreynslaus og var hún mjög góð bæði sem ungur hippi og miðaldra kona. Aðrir komust sem fyrr segir vel frá sínu og er leikhópurinn ótrúlega jafn.

… Á heildina litið er óhætt að segja að leikstjóranum Þóreyju Sigþórsdóttur hafi tekist að setja á svið einkar skemmtilega sýningu sem þó er ekki eintóm skemmtun heldur vekur jafnframt upp spurningar um hina eilífu leit mannsins að ástinni og sjálfum sér." 

Dóminn í heild sinni má sjá hér


Frábær frumsýning
27.02.2017 - Don Ellione

Leikfélag Selfoss frumsýndi sýninguna Uppspuna frá rótum föstudaginn 24. febrúar. Þrátt fyrir válynt veður fyrr um daginn hafði það lítil áhrif á gesti sem skemmtu sér afar vel og innilega. Mikið var hlegið, leikritið þótti afar vel samið og leikararnir standa sig með eindæmum vel. Ekki var tónlistin síðri og gestir voru hæstánægðir með sýninguna. 


Leikhópurinn og aðstandendur sýningarinnar voru glaðir að sýningu lokinni enda hélt fulltrúi bæjarstjórnar fallega ræðu um hversu snortin hann var og glaður með sýninguna. Eins höfðu hinir og þessir smáfuglar hvíslað árnaðarorð í eyru leikara. Leikfélagið er sömuleiðis afar stolt af sýningunni og leikurunum sínum. Ekki annað hægt að segja en að afrasktur síðustu vikna undir handleiðslu Þóreyjar Sigþórsdóttur hafi skilað ríkulegum ávexti. 


Um leið hvetur leikfélagið alla til að tryggja sér miða á sýninguna til að njóta gleðinnar með okkur. 


Frumsýning á Uppspuna frá rótum
14.02.2017 - Don Ellione

Leikfélag Selfoss frumsýnir verkið Uppspuna frá rótum föstudaginn 24. febrúar í Litla leikhúsinu við Sigtún. Verkið er eftir þá Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason en þeir hafa samið fjölda leikrita saman og í sitthvoru lagi. Auk þess eru þeir allir meðlimir í hinni stórskemmtilegu hljómsveit Ljótu hálfvitunum.
 
Verkið er fjölskyldusaga þar sem saman eru komnir fjórir ættliðir og hefst þegar Sigurður gamli, sem var í senn eiginmaður, pabbi, afi og langafi annarra persóna verksins, er nýlátinn. Fjölskyldusagan er rakin í grófum dráttum í öfugri tímalínu og spannar mestalla 20. öldina. Verkið er bæði gaman og alvara með fjölda skemmtlegra laga sem einnig eru samin af áðurnefndu þríeyki. Það var fyrst sýnt á heimavelli þremenningana á Húsavík árið 2000 en er nú sett upp í annað sinn.  

Leikstjóri sýningarinnar er Þórey Sigþórsdóttir leikkona og leikstjóri sem nýlega leikstýrði hinni frábæru sýningu Andaðu, sem sýnd er um þessar mundir í Iðnó. Alls eru 15 leikarar í sýningunni, hæfileg blanda af reyndum kempum sem og rísandi stjörnum framtíðarinnar. Auk þess er fjöldi fólks sem vinnur hin fjölmörgu en gríðarlega mikilvægu handtök baksviðs. Hópurinn inna sviðs sem utan vinnur nú hörðum höndum að hnýta lausa enda til að gefa ykkur öllum frábæra sýningu sem fjallar um fólk eins og mig og þig og alla hina.


Leikfélag Selfoss / Sigtún 1, 800 Selfoss / leikfelagselfoss@gmail.com