Gleðileg jól
24.12.2016 - Don Ellione

Leikfélag Selfoss óskar öllum félögum, vinum og vandamönnum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.  Þökkum kærlega fyrir ánægjulegar stundir á hinum ýmsu viðburðum okkar á árinu. Við hlökkum sannarlega til að eiga nýjar ánægjustundir á komandi ári. 

Við vonum að þið borðið vel og eigið innilegar og góðar stundir með fjölskyldu og vinum um hátíðirnar. Passið ykkur á Jólasveinum, Grýlu og Jólakettinum. Leppalúði nennir nú varla að angra ykkur mikið. 

Stjórn Leikfélags Selfoss. 


Jólakvöld Leikfélag Selfoss
23.12.2016 - Don Ellione

Leikfélag Selfoss hélt sitt árlega jólakvöld 14. desember í Litla leikhúsinu við Sigtún. Fólk átti saman afar notalega og heimilislega stund þar sem kaffi, kakói og smákökum voru gerðar góð skil. 

Jólasaga var lesin, lög sungin og Jólakötturinn mætti í skrítnum búningi og grýtti mandarínum í fólk og fylgihluti. Sannarlega vel heppnað og skemmtilegt kvöld sem er ómissandi partur af starfi leikfélagsins.

 
Leiksmiðja fyrir stóru uppsetningu vetrarins
14.11.2016 - Stefán Örn Viðarsson

Daginn.  Nú fer að líða að því að Leikfélag Selfoss setji upp aðal verk vetrarins. Verkið sem ákveðið hefur verið að setja upp heitir Uppspuni frá rótum eftir Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Leikstjóri verður Þórey Sigþórsdóttir.

Dagskráin fer í gang fljótlega og er sem hér segir:

Leiksmiðja:
Laugardaginn 26. og sunnudaginn 27. nóvember  frá 10 - 17

Æfingar:
Sun 4.12 Mán 5.12. Þri 6.12. Fim 7.12. 

Í vikunni 4.-9. desember verður sett í hlutverk og æfingar hefjast frá og með 5. des skv. nánara skipulagi þegar hópurinn er fullskipaður.

Í leiksmiðjunni verður unnið með allt sem kemur að vinnu leikarans. Öndun, rödd og líkama fyrri hluta dags og svo farið í spunavinnu sem tengist verkinu í seinni hlutanum.

Verkið Uppspuni frá rótum er skemmtilegt fjölskyldudrama fullt af húmor og skemmtilegri tónlist. Það segir sögu stórfjölskyldu í gegnum fjórar kynslóðir frá upphafi aldar til ársins 2000. Þarna ættu margir að kannast við sjálfa sig eða sína í einhverju samhengi. 
  
Við getum ekki lofað öllum hlutaverkum en kannski ert það einmitt þú sem átt erindi upp á svið núna! Það vantar alltaf gott fólk sem brennur fyrir leiklistinni og gefandi samvinnu. Í verkinu eru a.m.k. 15 hlutverk fyrir fólk á aldrinum 16 - 90 ára. Allir eru velkomnir sem hafa áhuga á því að taka þátt í leiksýningunni - leikriti með söngvum sem áætlað er svo að frumsýna í febrúar 2017.

Hlökkum til að sjá ykkur!


Leikfélag Selfoss / Sigtún 1, 800 Selfoss / leikfelagselfoss@gmail.com