Leiksmiðja fyrir stóru uppsetningu vetrarins
14.11.2016 - Stefán Örn Viðarsson

Daginn.  Nú fer að líða að því að Leikfélag Selfoss setji upp aðal verk vetrarins. Verkið sem ákveðið hefur verið að setja upp heitir Uppspuni frá rótum eftir Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Leikstjóri verður Þórey Sigþórsdóttir.

Dagskráin fer í gang fljótlega og er sem hér segir:

Leiksmiðja:
Laugardaginn 26. og sunnudaginn 27. nóvember  frá 10 - 17

Æfingar:
Sun 4.12 Mán 5.12. Þri 6.12. Fim 7.12. 

Í vikunni 4.-9. desember verður sett í hlutverk og æfingar hefjast frá og með 5. des skv. nánara skipulagi þegar hópurinn er fullskipaður.

Í leiksmiðjunni verður unnið með allt sem kemur að vinnu leikarans. Öndun, rödd og líkama fyrri hluta dags og svo farið í spunavinnu sem tengist verkinu í seinni hlutanum.

Verkið Uppspuni frá rótum er skemmtilegt fjölskyldudrama fullt af húmor og skemmtilegri tónlist. Það segir sögu stórfjölskyldu í gegnum fjórar kynslóðir frá upphafi aldar til ársins 2000. Þarna ættu margir að kannast við sjálfa sig eða sína í einhverju samhengi. 
  
Við getum ekki lofað öllum hlutaverkum en kannski ert það einmitt þú sem átt erindi upp á svið núna! Það vantar alltaf gott fólk sem brennur fyrir leiklistinni og gefandi samvinnu. Í verkinu eru a.m.k. 15 hlutverk fyrir fólk á aldrinum 16 - 90 ára. Allir eru velkomnir sem hafa áhuga á því að taka þátt í leiksýningunni - leikriti með söngvum sem áætlað er svo að frumsýna í febrúar 2017.

Hlökkum til að sjá ykkur!


Söngnámskeið með Söru Blandon
02.11.2016 - Jónheiður Ísleifsdóttir

Leikfélag Selfoss og Sara Blandon jazzsöngkona halda söngnámskeið fyrir áhugaleikara og sturtusöngvara.

Finnum leið út úr skelinni og leyfum röddinni að njóta sín. Sjálfstyrkingar- og hættu-að-taka-þig-of-alvarlega-æfingar. Glens, grín, gleði og kærleikur. 

Námskeiðið verður haldið laugardagana 12. og 19. nóv kl. 10:00-15:00 í Litla leikhúsinu við Sigtún. Skráning á leikfelagselfoss@gmail.com. Fjöldi þátttakenda verður takmarkaður þannig að fyrstir koma fyrstir fá. Nánari upplýsingar á leikfelagselfoss@gmail.com eða hér á facebook

Frítt er á námskeiðið fyrir skráða félagsmenn Leikfélags Selfoss en námskeiðsgjald er 3.000 kr. fyrir aðra.
Námskeiðið er ætlað 16 ára og eldri og eru allir velkomnir.


Stíflan brestur
20.10.2016 - Jónheiður Ísleifsdóttir
 
Síðasta vor héldu Leikfélag Selfoss og Leikfélag Ölfuss sameiginlegt leikritunarnámskeið. Á námskeiðið mættu 14 upprennandi leikskáld og skrifuðu, lásu og skemmtu sér undir handleiðslu Karls Ágústar Úlfsonar.

En leikrit eru ekki rituð til að safna ryki í skúffum og tölvum og því var ákveðið að skella í stuttverkadagskrá og setja nokkur verkanna á svið.

Stuttverkin sex sem valin voru til uppsetningar eru fjölbreytt og sýna það glögglega að þó að allur hópurinn hafi oft unnið með sama þema þá voru útkomurnar oft mjög ólíkar.

Við fáum að kynnast hinum ýmsu hliðum á mannlegu og jafnvel dýrslegu eðli og skyggnast inn í heima á mörkum fantasíu og raunveruleika.

Dagskráin verður sýnd næstkomandi laugardag 22. október kl. 16:00 og verður aðeins þessi eina sýning í Litla leikhúsinu við Sigtún.

Allir velkomnir! Frítt inn :)


Leikfélag Selfoss / Sigtún 1, 800 Selfoss / leikfelagselfoss@gmail.com