Ný stjórn og tíðindi af aðalfundi
25.05.2017 - Don Ellione

Aðalfundur Leikfélags Selfoss var haldinn í Litla leikhúsinu við Sigtún þann 10. maí. Mæting á fundinn var góð og létt yfir fólki og fundinum að vanda. Farið var yfir starfið á leikárinu sem var að ljúka, teknir inn fjölmargir nýjir félagar og kosið í stjórn. 

Meðal þess sem kom fram á fundinum var að Guðfinna Gunnarsdóttir vinnur nú að undirbúningi á leiksýningu sem hún mun leikstýra næsta haust hjá leikfélaginu. Verkið verður kvennasýning en hún er unnin upp úr skáldverkum hinnar kanadísku Margaret Atwood. Einnig var afmælisnefnd leikfélagsins kynnt en Leikfélag Selfoss verður 60 ára þann 9. janúar 2018. Nefndin mun vinna að tillögum að afmælisdagskrá í tilefni þess. Ýmistlegt fleira skemmtilegt var rætt og fundurinn bráðfjörugur á köflum.

Nýr formaður var kosinn á fundinum en Sigrún Sighvatsdóttir fékk dynjandi lófaklapp allra viðstaddra í embættið. Hún er að taka við stjórnataumunum á ný eftir nokkurra ára hlé. Ný stjórn hefur nú skipt með sé verkum og er eftirfarandi: 

Formaður - Sigrún Sighvatsdóttir
Varaformaður - Guðný Lára Gunnarsdóttir
Ritari - Jónheiður Ísleifsdóttir
Gjaldkeri - Svanhildur Karlsdóttir
Meðstjórnandi - Viktor Ingi Jónsson

Í varastjórn sitja: F. Elli Hafliðason, Sigríður Hafsteinsdóttir og Gústav Þór Stolzenwald.


Artemis dansskóli sýndi Rauðhettu
25.05.2017 - Don Ellione

Leikfélagið fékk afar skemmtilega heimsókn síðustu vikuna í apríl. Dansskólinn Artemis á Selfossi mætti með her barna í leikhúsið til æfinga á dansútgáfu af ævintýrinu um Rauðhettu. Börnin voru á ýmsum aldri en yngstu þátttakendur sýningarinnar voru allt niður í 3 ára gamlir. Skólinn sýndi þrjár sýningar í Litla leikhúsinu við Sigtún 30. apríl, allar fyrir fullu húsi. 

Leikfélaginu þótti mikill heiður af því að fá þennan hóp af dönsurum framtíðarinnar í heimsókn. Sýningin var greinilegt merki um að framtíð sviðlista er björt á Selfossi. 


Aðalfundur Leikfélags Selfoss
05.05.2017 - Don Ellione

Aðalfundur Leikfélags Selfoss 2017 verður haldinn miðvikudaginn 10. maí næstkomandi í Litla leikhúsinu við Sigtún kl. 20:00. Viðhöfð verða venjuleg aðalfundarstörf, m.a. stjórnarkjör og inntaka nýrra félaga.  Aðalfundir L.S. eru heimilislegir og í flesta staði léttir og skemmtilegir. Allir eru velkomnir.

Sérstaklega er vakin athygli á því að nýir félagar geta gengið formlega í félagið á aðalfundi. Einnig er vakin athygli áhugasamra á því að skuldlausir félagar geta boðið sig fram í stjórn og varastjórn á aðalfundi (nýjir félagar líka). Auk þess er fundarmönnum frjálst að leggja erindi og fyrirspurnir fyrir fundinn í liðnum önnur mál. 

Að lokum minnum við á facebooksíðuna Leikfélag Selfoss, heimasíðuna leikfelagselfoss.is og tölvupóstinn leikfelagselfoss@gmail.com  þar sem hægt að skrá sig á póstlista og fá ýmsar tilkynningar um starf félagsins auk þess að spyrja nánar út í aðalfundinn.  


Leikfélag Selfoss / Sigtún 1, 800 Selfoss / leikfelagselfoss@gmail.com