Stíflan brestur
20.10.2016 - Jónheiður Ísleifsdóttir
 
Síðasta vor héldu Leikfélag Selfoss og Leikfélag Ölfuss sameiginlegt leikritunarnámskeið. Á námskeiðið mættu 14 upprennandi leikskáld og skrifuðu, lásu og skemmtu sér undir handleiðslu Karls Ágústar Úlfsonar.

En leikrit eru ekki rituð til að safna ryki í skúffum og tölvum og því var ákveðið að skella í stuttverkadagskrá og setja nokkur verkanna á svið.

Stuttverkin sex sem valin voru til uppsetningar eru fjölbreytt og sýna það glögglega að þó að allur hópurinn hafi oft unnið með sama þema þá voru útkomurnar oft mjög ólíkar.

Við fáum að kynnast hinum ýmsu hliðum á mannlegu og jafnvel dýrslegu eðli og skyggnast inn í heima á mörkum fantasíu og raunveruleika.

Dagskráin verður sýnd næstkomandi laugardag 22. október kl. 16:00 og verður aðeins þessi eina sýning í Litla leikhúsinu við Sigtún.

Allir velkomnir! Frítt inn :)


Þjóðleikhúsið í heimsókn
17.10.2016 - Don Ellione
 
Leikfélag Selfoss fékk afar ánægjulega heimsókn í síðustu viku í Litla leikhúsið við Sigtún. Annað árið í röð kom Þjóðleikhúsið í heimsókn með barnasýningu sem er á ferðalagi vítt og breytt um landið. Sýningin heitir Lofthræddi örninn Örvar og er ætluð fyrir börn á leikskólaaldri og yngstu bekki grunnskóla. Þjóðleikhúsið býður börnum á aldrinum 5 - 6 ára á sýningarnar.

Leikstjórinn Björn Ingi Hilmarsson og leikarinn Oddur Júlíusson skelltu sýningunni upp í Litla leikhúsinu. Þeir sýndu svo fjórar sýningur fyrir um 150 börn af Suðurlandi 10. og 11. október. Voru þeir hæst ánægðir með húsið og móttökurnar. Sýningarnar tókust einnig vel og börnin fóru glöð í bragði út í blautt haustið. Leikfélagið vonar sannarlega að áframhald verði á þessum heimsóknum frá Þjóðleikhúsinu, þjóðareign landsmanna. 


Óvænt heimsókn
15.10.2016 - Guðný Lára Gunnarsdóttir
 
Í dag fengum við óvænta skemmtilega heimsókn upp úr þurru. Við vorum að vinna í rólegheitum að því að stilla píanóið okkar ásamt því að koma upp nýju hljóðkerfi í húsið. Inn gekk ungt par frá Póllandi sem langaði að fá að skoða leikhúsið okkar. Elli og Stefán tóku auðvitað vel á móti þeim og gengu þeir með þeim um húsið og spjölluðu allskonar með píanóstillingartóna í bakgrunninum ásamt Dire Straight úr nýju hátölurunum. Allt hreinlega eins og þetta á að vera í leikhúsinu


Leikfélag Selfoss / Sigtún 1, 800 Selfoss / leikfelagselfoss@gmail.com