Opið hús á Vor í Árborg
21.04.2017 - Don Ellione

Í tilfefni af Vor í Árborg verður Leikfélag Selfoss með opið hús laugadaginn 22. apríl kl. 11:00 - 16:00. Meðlimir leikfélagsins taka á móti gestum, sýna þeim húsið og andlitsmálning verður í boði fyrir krakkana. 

Kaffi, djús og vöfflur verða í boði með en auk þess verður hægt að fá stimpil í Gaman saman leiknum í tengslum við hátíðina. Myndir úr starfi félagsins munu rúlla en auk þess verður hægt að spyrja út í starf félagsins og kynnast leikfélaginu á einn og annan hátt. 

Allir velkomnir, tilvalinn stoppistöð á bæjarröltinu. 


Sýningum á Uppspuna frá rótum lokið
18.04.2017 - Don Ellione

Nú er sýningum á hinu skemmtilega verki Uppspuna frá rótum lokið hjá Leikfélagi Selfoss. Lokasýning var laugardaginn 8. apríl og voru leikararnir kvaddir með fagnaðarlátum og taktföstu klappi að vanda, enda áhorendur hæstánægðir. Alls voru sýndar 16 sýningar í Litla leikhúsinu við Sigtún og um 750 áhorfendur sáu sýninguna. 

Leikhópurinn náði einstaklega vel saman við uppsetninguna en hann samanstóð af góðri blöndu af ungum framtíðarstjörnum sem og eldri og reyndari kempum. Er leikfélagið afar stolt af hópnum og hlakkar til að vinna með öllum sem honum tilheyrðu í framtíðinni. Það var einkar ánægjulegt að fá að rækta tónlistarhæfileika hópsins enda verkefnið meðal annars valið með það í huga. 

Stjórn leikfélagsins vill bæði þakka leikhópnum, leikstóranum Þóreyju Sigþórsdóttur sem og öllum þeim fjöldamörgu sem komu að sýningunni kærlega fyrir samvinnuna. En ekki síður þakkar leikfélagið öllum þeim sem sóttu okkur heim og nutu gleðinnar með okkur.

 
Keilir í heimsókn
05.04.2017 - Don Ellione

Reglulega fær Leikfélag Selfoss skemmtilegar heimsóknir í Litla leikhúsið við Sigtún. Mest er um skólaheimsóknir þar sem börn fá leiðsögn um húsið og kynnast starfinu. En einnig koma einstaka hópar fullorðinna sem og einstaka stakir gestir, jafnvel leikhúsfólk erlendis frá sem finnst gaman að skoða lítið og sætt leikhús á Íslandi.

Þann 1. apríl síðastliðinn fengum við stóran hóp fólks úr starfsmannafélagi Háskólabrúar Keilis frá Reykjanesbæ í heimsókn, en félagið hélt árshátíð sína á Selfossi þessa helgi. Hópurinn kom arkandi í blíðskaparveðri og áði í um 30 mín. í leikhúsinu þar sem formaður leikfélagsins kynnti leikfélagið, leikhúslífið og húsið fyrir gestunum. Leikarar úr sýningunni Uppspuni frá rótum sýndu svo stutt atriði úr sýningunni fyrir hópinn sem vakti mikla lukku, aðdáun og hlátur. Voru gestirnir yfir sig ánægðir með heimsóknina og héldu brosandi áfram göngu sinni en meistari Kjartan Björns ætlaði að ganga með þeim um bæinn. Það var skemmtileg tilviljun að í hópi gesta leyndist formaður Leikfélags Keflavíkur sem og einn fyrrverandi félagi úr Leikfélagi Selfoss.

Leikfélagið vill nýta tækifærið og minna á að síðustu sýningar á Uppspuna frá rótum eru framundan og hvetur alla að missa ekki af þessari skemmtilegu sýningu. Nánar má kynna sér sýninguna undir flipanum „Viðburður í gangi” og á fésbókinni. 


Leikfélag Selfoss / Sigtún 1, 800 Selfoss / leikfelagselfoss@gmail.com