Tíðindi af aðalfundi
18.05.2016 - Don Ellione
 
Aðalfundur Leikfélags Selfoss 2016 var haldinn í fallegu veðri 11. maí í Litla leikhúsinu við Sigtún. Mæting var góð og léttur andi yfir öllum að vanda. Fundurinn var með hefðbundnu sniði, kosið var í stjórn, nýjir félagar bættust í hópinn, síðasta leikár var krufið og drög að því næsta rædd. 

Lilja Jóna Halldórsdóttir og Hafþór Agnar Unnarsson sögu sig úr stjórn. Í þeirra stað komu Stefán Örn Viðarsson og Davíð Alexander Österby Christensen nýjir inn í stjórn. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skipti hún með sér verkum: F. Elli Hafliðason formaður, Sigríður Hafsteinsdóttir varaformaður, Stefán Örn Viðarsson ritari, Jónheiður Ísleifsdóttir gjaldkeri og Guðný Lára Gunnarsdóttir meðstjórnandi. Í varastjórn sitja Viktor Ingi Jónsson, Svanhildur Karlsdóttir og Davíð Alexander Österby Christensen. 

Helstu tíðindi af leikárinu voru að síðasta leikár var afar viðburðaríkt og voru m.a. sett á svið þrjú stór leikverk og ein þeirra fór erlendis á leiklistarhátíð. 


Aðalfundur Leikfélags Selfoss
01.05.2016 - Don Ellione
 
Aðalfundur Leikfélags Selfoss 2016 verður haldinn miðvikudaginn 11. maí næstkomandi í Litla leikhúsinu við Sigtún kl. 20:00. Viðhöfð verða venjuleg aðalfundarstörf, m.a. stjórnarkjör og inntaka nýrra félaga. Aðalfundir L.S. eru heimilislegir og í flesta staði léttir og skemmtilegir. Allir eru velkomnir.

Sérstaklega er vakin athygli á því að nýir félagar geta gengið formlega í félagið á aðalfundi. Einnig er vakin athygli áhugasamra á því að skuldlausir félagar geta boðið sig fram í stjórn og varastjórn á aðalfundi (nýjir félagar líka). Auk þess er fundarmönnum frjálst að leggja erindi og fyrirspurnir fyrir fundinn í liðnum önnur mál.

Að lokum minnum við á fésbókarsíðuna Leikfélag Selfoss og tölvupóstinn leikfelagselfoss@gmail.com þar sem hægt að skrá sig á póstlista og fá ýmsar tilkynningar um starf félagsins auk þess að spyrja nánar út í aðalfundinn.


Vel heppnað leikritunarnámskeið
01.05.2016 - Don Ellione
 
Leikfélag Selfoss og Leikfélag Ölfuss tóku höndum saman og héldu leikritunarnámskeið í apríl undir handleiðslu Karls Ágúst Úlfssonar. Þátttaka var mjög góð en alls sóttu 16 manns námskeiðið og voru margir að stíga sín fyrstu skref á ritvöllinn.

Farið var yfir grunnhugtök og viðmið leikritunar auk þess sem hópurinn skrifaði fjöldann allan af stuttverkum af ýmsu tagi. Á lokakvöldi námskeiðsins var svo gestum og gangandi boðið að koma að hlusta en einnig að taka þátt í leiklestri á verkum hvers og eins höfundar í Litla leikhúsinu við Sigtún. Vel tókst til og verkin voru skemmtilega fjölbreytt.

Það er von leikfélaganna tveggja að námskeiðið hafi verið getið af sér 16 framtíðar leikritaskáld sem leyfi áhorfendum að njóta verka sinna á næstu árum. 


Leikfélag Selfoss / Sigtún 1, 800 Selfoss / leikfelagselfoss@gmail.com